18. nóvember 2008

Skrítnir tímar...

...finnst ykkur ekki?

Ég er margoft síðasta mánuðinn búin að hugsa skemmtileg blogg um hitt og þetta sem maður heyrir og sér þessa dagana en ég hef einhvern veginn ekki komið mér í það. Þetta blogg verður því slitrótt með litlum punktum um liðna daga og vikur án réttrar tímaröðunar.

* Drífa vinkona mín kíkti upp á land um daginn en hún á heima í Vestmannaeyjum. Hún er komin með veglega barnabumbu því hún ætlar að verða tvíburamamma með hækkandi sól. Mér fannst mjög gaman að ná að hitta hana og fara með henni út að borða og ræða um heima og geima. Ég veit til dæmis núna maður verður ekki bara feitur á meðgöngu heldur feitur með góða húð og fallegt hár, sem er þó bónus. Allavega var Drífa algjör bollubjútí.

* Ég fór á mjög uppbyggjandi fund fólks í hátækni- og sprotageiranum á Nordica á föstudaginn eftir vinnu. Þar voru fundarstjórar Svava Grönfeld og Þórólfur Árnason stjórnuðu fundi og voru frábær en ég heillaðist sérstaklega með Svövu. Fólk eins og hún ætti að vera við stjórnvölinn á tímum sem þessum. Hún gæti farið með okkur öll í skemmtigöngu berfætt yfir hraun og við kæmum glöð til baka, þvílíkur er sannfæringarkrafturinn. Á fundinum voru margar mínútulangar ræður þar sem forstjórar og framkvæmdastjórar sprotafyrirtækja og hátæknifyrirtækja töluðu til framtíðar og lofuðu störfum í sínum fyrirtækjum. Einnig komu fram Össur Skarp og Þorgerður Katrín og sögðu frá framlagi ríkis til sprotafyrirtækja. Valgeir og dj Margeir fengu svo alla í salnum með sér og bjuggu til hringitón sem sagði "núna er tækifærið" Ég gekk af þessum fundi full bjartsýni og með fullt af hugmyndum. Það skrítna er að ég hef varla séð fréttir né umtal af þessum fundi. Það er kannski ekki töff að vera með bjartsýnisfréttir þessa dagana.

* Á laugardaginn birtist auglýsing frá MS þar sem stelpan syngur "á íslensku má alltaf....bla bla bla" kann ekki alveg textann. Í lok auglýsingarinnar kom rödd og sagði "Við óskum öllum landsmönnum gleðilegrar hátíðar árs og friðar". Ég hugsaði: "Huhhhh? Það er nóvember? Er kreppan orðin svona slæm að það er verið að nota 10 ára gamla jólaauglýsingu til að minnka auglýsingakostnað?" Daginn eftir fattaði ég svo að það var dagur íslenskrar tungu. En ég meina come on! Það getur nú varla verið mikið mál að taka út áramótakveðjunaí lokin ;)

* Þennan sama laugardag fór ég á mótmælafund niðri á Austurvelli. Ekki seinna vænna að sýna vilja og skoðun í verki. Ég kallaði þar með öllum honum að ég vildi skipta um stjórn í seðlabankanum og skipta um fólk í fjármálaeftirlitinu og ýmislegt fleira sem ég kallaði eftir. Fundurinn fór vel fram (þaðan sem ég stóð), fólk á öllum aldri úr öllum stéttum. Ég hefði samt viljað sjá meiri baráttu og þá er ég ekki að tala um átök. Ég er meira að tala um öflugri baráttuköll og öskur. Reiðin skein ekki nógu skært út úr fólki....any who, vona að það verði meiri mótmælaköll næstu helgi. Allir að mæta...líka þú!

* Kjarri kúl skrifaði pistil á föstudaginn sem mér fannst einn sá besti í langan tíma. Hér er hann:

Sá vægir sem vitið hefur meira
Einu sinni bjó leigubílstjóri í litlum, köldum bæ. Leigubílstjórinn passaði vel upp á að halda litla leigubílnum sínum alltaf hreinum.

Einu sinni bjó leigubílstjóri í litlum, köldum bæ. Leigubílstjórinn passaði vel upp á að halda litla leigubílnum sínum alltaf hreinum. Broddborgurum bæjarins þótti gaman að spjalla við leigubílstjórann um heima og geima meðan á ökuferðum stóð. Leigubílstjórinn tók starf sitt alvarlega og lagði sig fram um að geðjast herrunum háu. Allt gekk sinn vanagang í litla bænum.

Snemma um haust hreiðruðu bræður um sig í bænum. Annar var risi og hinn var dvergur. Dvergurinn keyrði leigubíl, en sá var fjólublár og ljótur. Dvergurinn vildi bara spjalla um grænar baunir við farþega sína. Íbúar bæjarins þorðu ekki öðru en nýta sér leigubílaþjónustu dvergsins. Þeir voru nefnilega hræddir við risann bróður hans. Risinn átti það til að skvetta náttúrulegum lækningasmyrslum á vegfarendur. Leigubílstjórinn á litla leigubílnum var dapur yfir stöðu mála.

Hann gekk því á fund bræðranna og stakk upp á málamyndun. Dvergurinn myndi horfa á mynd með Cuba Gooding Jr. og í staðinn fengi risinn óheftan aðgang að sundstöðum bæjarins. Allir voru sáttir við þessa lausn.

Við fyrstu sýn virðist þessi litla dæmisaga ekki eiga mikið erindi í dag. En getur verið að ákveðin viska leynist í henni við nánari skoðun?

Svarið er nei. Þessi saga á ekki erindi við neinn, nokkurn tíma. En til að forðast að vera minni maður en flestir aðrir pistlahöfundar þjóðarinnar þessa dagana er bráðnauðsynlegt að rigga upp einhverju sem hljómar eins og hnyttin myndlíking fyrir ástandið. Góðar stundir.


*Og svo eitt að lokum. Sá þessa mynd á Laugarveginum í síðustu viku. Þetta er gleraugnabúð sem er búin að setja þetta í display gluggann sinn.


Ég vona að "sumir" fari að segja af sér að pólítískar ráðningar muni heyra sögunni til. Það eru allir komnir með upp í kok af spilliskít og við viljum öll fagfólk til að leiða landið áfram. Afhverju þykir það bara "eðlilegt" að dýralæknir stjórni fjármálum heils lands? Afhverju er maður, sem hefur haft starfan af því að koma pólitískum skoðunum sínum á framfæri í 25 ár, settur sem einn æðsti stjórnandi í Seðlabanka? Pólitískar skoðanir eiga þar ekki heima, heldur einungis her hæfustu hagfræðinga og viðskiptafræðinga. Það ætti að vera hinn íslenski her!

Jæja, takk og bless...best að fara að vinna aftur ;)



vista-blogga-senda blogg

1 Comment:

Nafnlaus said...

www.myntkarfan.wordpress.com